Jörfi

Jörfi

Jörfi. Ljósmynd BJ 1988.

Búseta 1695-2014

Búseta á Jörfa

Túnakort

Jörfi. Túnakort frá árinu 1919. Þjóðskjalasafn Íslands.

Jörfa er fyrst getið í Landnámu og Eiríks söqu rauða. Þá er Jörfa víða getið í heimildum frá 16. og 17. öld, enda var þar kirkja og þingstaður hreppsins um langan tíma. Til eru máldagar Jörfakirkju og eru þeir elstu frá öndverðri 16. öld. Kirkjan var helguð guði, jungfrú Maríu og helgum krossi í kaþólskum sið.

Í sóknarlýsingu séra Bjarna Eggertssonar (1801-1863) frá 1840 er þess getið að Jörfi hafi átt selstöðu á Sléttadal, sem fyrrum hafi verið nýtt.

Í landi Jörfa er til örnefnið Gálghamar, sem gæti bent til þess að þar hafi farið fram aftökur fyrr á tímum í tengslum við þinghald á Jörfa. Um þetta er þó ekkert vitað með vissu.

Á Jörfa var haldin Jörfagleði sú er Jörfagleði hin nýrri sækir til nafngift sína. Um hina fornu Jörfagleði er annars fátt vitað með vissu, en um hana ganga ýmsar sagnir, einkum af meintu gjálífi, sem þar á að hafa verið í hávegum haft. Þannig er það haft eftir Magnúsi Stephensen, konferensráði og dómstjóra, að 19 börn hafi komið undir á hinni síðustu gleði. Því er og fleygt að vinnufólk hafi sett sem skilyrði fyrir ráðningu að það mætti fara til gleðinnar. Heimildir eru um að a.m.k. tveir sýslumenn hafi afskipað Jörfagleði; fyrst Björn sýslumaður Jónsson á Staðarfelli, árið 1695, og síðan Jón Magnússon, bróðir Árna handritasafnara, árið 1708. Báðir urðu þeir fyrir skakkaföllum eftir afskipti sín af Jörfagleði. Björn missti líf sitt skömmu eftir embættisverkið, en Jón sýslumannsembættið fyrir hórdómsbrot. Hafa sumir talið að þessar ófarir þeirra sýslumannanna ættu rót að rekja til íhlutunar þeirra í gleðihald á Jörfa.

Til er sú þjóðsaga um Jörfa að þar hafi fælst svo hestar á túni að þeir hafi hlaupið til fjalls og ekki numið staðar fyrr en þeir voru í sjálfheldu komnir í Jörfahnúk. Sumar gerðir þessarar sögu herma að þar hafi þeir verið skotnir, þar sem þeim varð ekki bjargað öðruvísi. Aðrar gerðir segja hestana hafa hrapað niður úr sjálfheldunni, einn og einn í einu. Ekki eru sagnir heldur á einu máli um orsök þessa furðulega atburðar. Ein sagan segir að hann eigi rót sína að rekja til þess að húsráðandi á Jörfa synjaði norðlenskum vermönnum um mat og húsaskjól. Á öðrum stað er einungis um einn norðlenskan ferðamann að ræða. Enn er sú skýring gefin að nokkru áður hafði bóndinn á Jörfa rifið rúst nokkra í túninu og hlaðið fjárhús úr grjótinu. Um rústina gekk sú saga að á dögum Jörfagleðinnar hafi verið á Jörfa kerling ein, sem þótti hnýsin og afskiptasöm, einkum um háttu hinna yngri manna á bænum. Var mælt að þeir hefðu banað kerlu og urðað í rústinni. Sagt var að ekki mætti hreyfa þar stein að viðlögðum afarkostum.

Jörfi hefur verið i eyði frá árinu 1982.

Comments are closed.