Ekki liggja fyrir heimildir um búsetu annarra manna en Eiríks rauða á Eiríksstöðum.
Eiríksstaða er fyrst getið í Landnámu, þar sem segir frá búsetu Eiríks rauða. Þaðan hrökklaðist hann svo vegna vígaferla, eins og síðar getur. Gaman er að gæla við þá hugmynd að Leifur heppni hafi fæðst á Eiríksstöðum, en ekkert er um það vitað með vissu.
Í Landnámu segir frá því að þrælar Eiríks rauða hafi fellt skriðu á bæ Valþjófs á Valþjófsstöðum, en Eyjólfur saur, frændi hans, drap þrælana hjá Skeiðsbrekkum upp frá Vatnshorni. Eiríkur hefndi þræla sinna, háði orrustu við Eyjólf saur og felldi hann. Sagnir eru um að þau vopnaskipti hafi átt sér stað í svonefndum Orrustuhvammi skammt framan við Saurstaðagil. Eiríkur drap fleiri menn, þar á meðal Hólmgöngu-Hrafn á Leikskálum. Frændur Eyjólfs saurs, Geirsteinn og Oddur á Jörfa, mæltu eftir hann og var Eiríkur gerður útlægur. Þá fór hann til Grænlands árið 982, svo sem frægt er orðið, og Leifur, sonur hans, síðar til Ameríku, sem hann skírði reyndar Vínland hið góða.
Í Jarðabók Árna og Páls er Eiríksstaða getið í lýsingu Vatnshorns og þar segir:
þetta kot er meint að hafa verið bygð jörð í gamaldaga og kölluð Eiríksstaðir; sjást þar og girðingar til líkinda.
Sjá einnig umfjöllun um landnám í Haukadal á þessum vef.