Eiríksstaðir

Eiríksstaðir

Tilgátuhús á Eiríksstöðum. Ljósmynd BJ 2003.

Ekki liggja fyrir heimildir um búsetu annarra manna en Eiríks rauða á Eiríksstöðum.

Eiríksstaða er fyrst getið í Landnámu, þar sem segir frá búsetu Eiríks rauða. Þaðan hrökklaðist hann svo vegna vígaferla, eins og síðar getur. Gaman er að gæla við þá hugmynd að Leifur heppni hafi fæðst á Eiríksstöðum, en ekkert er um það vitað með vissu.

Í Land­námu segir frá því að þrælar Eiríks rauða hafi fellt skriðu á bæ Val­þjófs á Val­þjófs­stöðum, en Eyjólfur saur, frændi hans, drap þrælana hjá Skeiðs­brekkum upp frá Vatns­horni. Eiríkur hefndi þræla sinna, háði orrustu við Eyjólf saur og felldi hann. Sagnir eru um að þau vopna­skipti hafi átt sér stað í svonefndum Orrustu­hvammi skammt framan við Saur­s­taða­gil. Eiríkur drap fleiri menn, þar á með­al Hólm­göngu-Hrafn á Leik­s­kálum. Frændur Eyjólfs saurs, Geir­s­teinn og Oddur á Jörfa, mæltu eftir hann og var Eiríkur gerður út­lægur. Þá fór hann til Græn­lands árið 982, svo sem frægt er orðið, og Leifur, sonur hans, síðar til Ameríku, sem hann skírði reyndar Vín­land hið góða.

Í Jarðabók Árna og Páls er Eiríksstaða getið í lýsingu Vatnshorns og þar segir:

þetta kot er meint að hafa verið bygð jörð í gamaldaga og kölluð Eiríksstaðir; sjást þar og girðingar til líkinda.

Sjá einnig umfjöllun um landnám í Haukadal á þessum vef.

Comments are closed.