Búseta 1695-2014
Kross er fyrst getið um 1500 í máldaga Sauðafellskirkju en Kross var lengi í eigu kirkjunnar á Sauðafelli. Eftir siðaskiptin komst jörðin svo í eigu Daða Guðmundssonar í Snóksdal. Að fornu var jörðin metin á 16 hundruð en í nýja matinu er hún metin á 9,5 hundruð.
Kross fór í eyði árið 1965.
Til er reiðleið frá Krossi um Jörfamúla að Fornahvammi í Norðurárdal.
Af Erlendi á Krossi
Einu sinni messaði séra Benedikt Árnason á Kvennabrekku (d. 1825) að Vatnshorni í Haukadal nálægt 1800. Það var siður að spyrja unglinga út úr messunni. Sjö eða átta unglingar voru þar viðstaddir. Einn þeirra var Ólafur Sigurðsson frá Núpi, er seinna varð prestur í Flatey (d. 1860). Annar hét Erlendur Andrésson frá Krossi. Hann varð seinna mesta karlmenni en þótti fremur grunnhygginn. Prestur spurði Erlend fyrstan hvað hann myndi úr ræðunni, en hann svaraði: „Synd, dauði, djöfull og helvíti, karl minn.“ Prestur spurði hvort hann myndi ekki meira en Erlendur svaraði: „Óekkí, karl minn.“ Við þetta brá prestur klúti fyrir munn sér, en lítið vantaði til að piltarnir skelltu upp úr. Ekki varð meira úr spurningum í þetta skipti.
Ólafur Davíðsson, Íslenzkar þjóðsögur IV, bls 261-262.