Vatn

Vatn

Vatn. Mynd http://www.christopherson.net/.

Búseta 1695-2014

Búseta_28-Vatn

Túnakort

Vatn. Túnakort frá árinu 1919. Þjóðskjalasafn Íslands.

Vatn kemur fyrst við sögu í Landnámu og er þá bóndi þar maður að nafni Þorbjörn og er hans áður getið. Siðar komst jörðin í eigu Lofts Guttormssonar hins ríka á Möðruvöllum og er hennar getið í gjafabréfi Lofts, frá 1430, þar sem hann gefur Sumarliða syni sínum hana. Að fornu var jörðin metin á 50 hundruð, en í matinu frá 1861 er hún talin 28,5 hundruð.

Í sóknarlýsingu séra Bjarna Eggertssonar (1801-1863) frá 1840 er greint frá því að Vatn hafi átt selstöðu á Vatnsþverdal, sem fyrrum hafi verið nýtt.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar eru til sagnir af Silunga-Birni nokkrum, sem a að hafa búið á Vatni. Var hann ekki við eina fjölina felldur og kunni ýmislegt fyrir sér. Er sagt að hann hafi verið sundmaður mikill og hafi synt um allt Haukadalsvatn og verið í því einu sinni svo dægrum skipti. „Varð honum þá það til lífs að hann rataði upp um auga sem hann fór ofan um þegar sólin skein úr sömu átt; er sagt hann þar hafi séð dauða sinn næstan á ævi sinni. En öngum mundi hann segja frá hvað fyrir hann bar.“ (iii, bls 143) Þá segir einnig frá samskiptum Björns við huldufólk.

Silunga-Björn átti til að hverfa í skammdeginu í einn eða tvo daga i senn. Fóstursonur Björns, Magnús Jónsson, sótti fast að fá að fara með honum eitt sinn og lét Björn undan þrábeiðni hans með því skilyrði að hann gerði allt eins og Björn. Þeir fóru út, gengu um hríð og komu að hömrum tveimur. Björn drepur á annan hamarinn og laukst hann upp. Þar kom út ung og fögur kona sem bauð þeim inn. Þar var önnur eldri. Þeim var boðinn matur og vín. EFtir matinn háttar Björn hjá eldri huldukonunni en Magnús hjá hinni yngri. Magnúsi þótti nóttin erfið því að huldukonan var stundum brennheit og stundum ísköld viðkomu. Um morguninn sagðist hún hafa átt enn verri nótt en hann. Lagði hún á Magnús að hann yrði gerður útlægur vegna barneigna. Björn var fóstursyni sínum reiður fyrir frammistöðuna og þóttist hafa átt í erfiðleikum með að ná honum á lífi úr hamrinum. Álög huldukonunnar gengu eftir og var Magnús búinn að eiga fjögur börn laungetin þegar hann hafði sex um tvítugt og varð fjórðungsrækur eftir þágildandi lögum. Giftist hann eftir það og þótti nýtur bóndi.

Á öðrum stað í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá viðskiptum Galdra-Brands, í Stóra-Skógi, og Bjarna Sveinssonar, sem þá bjó á Vatni. Hafði Bjarni numið galdrakúnstir af Galdra-Brandi, svo hann var honum nálega jafnfær. Urðu deilur með þeim út af veiði í vatninu og skiptust þeir á um að magna upp drauga og senda hvor öðrum. Hafði Bjarni að lokum betur í viðskiptum þeirra. Sagt er að þeir færu báðir í vatnið, Bjarni og Galdra-Brandur, þegar þeir voru dauðir og hefðu það að leik sínum að kasta fóstursyni Galdra-Brands á milli sín, en hann hafði Bjarni magnað á Brand. Við þessar tiltektir þeirra brotnaði ísinn af vatninu jafnvel þó í harða frosti væri og trúðu því sumir, segir þjóðsagan.

Comments are closed.