Stóra-Vatnshorn

Stóra-Vatnshorn

Stóra-Vatnshorn. Ljósmynd BJ 2006.

Búseta 1695-2014

Stóra-Vatnshorn

Túnakort

Stóra-Vatnshorn. Túnakort frá árinu 1919. Þjóðskjalasafn Íslands.

Stóra-Vatnshorns er fyrst getið í Landnámu, Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu. Á Stóra-Vatnshorni hefur verið sóknarkirkja Haukdælinga svo lengi sem vitað er og hefur að líkindum verið frá setningu tíundarlaga 1096. Kirkjan er fyrst nefnd í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200. Í máldaga frá 1355 er sagt að þangað liggi 15 bæir að tíundum. Þá er þess einnig getið að þangað liggi 5 bænhús, en hvar þau hafi verið er ekki lengur vitað, nema að á Jörfa var hálfkirkja. Kirkjan á Stóra-Vatnshorni var í kaþólskum sið helguð með Guði Maríu, Andrési, Pétri, Ólafi og Þorláki. Kirkjan var annexía frá Kvennabrekku. Núverandi kirkja var vígð 15. ágúst 1971. Kirkjusmiður var Þorvaldur Brynjólfsson.

Að fomu var jörðin 60 hundruð og var þá Skriðukot meðtalið. Taldist hún þannig vera dýrasta jörðin í Haukadal. Væri Skriðukot ekki meðtalið, reiknaðist jörðin 44 hundruð. Í matinu frá 1861 telst jörðin vera 23,8 hundruð og Skriðukot þá ekki reiknað með. Jörðin hefur alla tíð verið í bændaeign. Á Stóra-Vatnshorni hefur sama ættin búið og átt það nær óslitið um 300 ára skeið.

Jón Sigurðsson Dalaskáld trúlofaðist Helgu Jónsdóttur, dóttur Jóns Hákonarsonar á Stóra-Vatnshorni. Nú gerðist það að Helga varð vanfær af völdum pilts er Egill hét. Jón kom að Vatnshorni um vor, er hann þingaði að Jörfa. Hann sá að Helgu var brugðið og vildi forðast hann. Þá kvað hann:

Lofaðu mér að líta þig,
láttu þér ekki svona.
Er það svo sem uggir mig,
að orðin sértu kona?

Jón reið nú á manntalsþing á Jörfa og hélt það eins og vandi er til, en þá er hann reið af þinginu, kvað hann vísu þessa:

Lífið er í herrans hönd,
hvað skal hér til segja.
Að láni höfum allir önd,
eitt sinn skulum deyja.

Þennan sama dag drukknaði Jón í Haukadalsá fyrir framan Stóra-Vatnshorn. Jón er annars þekktastur fyrir að vera höfundur „Tímarímu“, sem fjallar um samskipti hans við Odd Sigurðsson lögmann.

Þá eru til sagnir un að í síki skammt utan við bæinn sé geymdur peningakistill, en erfitt mun að ná honum því ef það er reynt er sagt að kirkjan á Stóra-Vatnshorni standi í björtu báli.

Við Stóra-Vatnshorn er kennt eitt merkasta handrit Íslendingasagna, Vatnshyrna, en Jón Hákonarson bóndi í Víðidalstungu mun hafa látið taka það saman. Vatnshyrna brann illu heilli í Kaupmannahöfn 1728, en texti hennar hefur að mestu varðveist í eftirritum Árna Magnússonar og Ásgeirs Jónssonar. Sagnir eru um að einhver blöð hinnar upprunalegu Vatnshyrnu hafi varðveist, en ekkert er í hendi um það. Jón Hákonarson lét einnig taka saman Flateyjarbók.

Á vef Jónasar Kristjánssonar um þjóðleiðir eru tilgreindar nokkrar reiðleiðir frá eða að Stóra-Vatnshorni. Þar á meðal er reiðleiðin Prestagötur, sem hefur vafalaust lengi verið leið presta frá Kvennabrekku til messuhalds á Stóra-Vatnshorni.

Comments are closed.