Landslag

Fjöll sunnanmegin í Haukadal

Fjöll sunnanmegin í Haukadal. Hamrafjall lengst til vinstri, þá Jörfahnjúkur, rétt grillir í Svínhólshlíð handan Jörfaþverdals og síðan Saurstaðaháls, miklu lægri. Myndin er tekin frá bæjarstæði Gamla-Núps. Ljósmynd BJ 2013.

Haukadalur liggur frá vestri til austurs. Málvenja er að tala um að fara fram þegar vísað er í austurátt (inn til landsins), en niður eða út þegar haldið er til vesturs (út til sjávar). Þegar komið er framundir Giljaland snarbeygir dalurinn til suðurs. Skammt fyrir framan Kross má greina fjóra smærri dali sem ganga austur og suður af Haukadal. Þeir heita, frá norðri til suðurs: Haukadalsskarð, Svínadalur, Sléttidalur og Haukadalur, sem er eiginlega drög megindalsins. Suður úr Haukadal ganga þrír dalir. Talið frá austri til vesturs eru Villingadalur, milli Kross og Mjóabóls, Skálardalur, sunnan Mjóabóls, og  Jörfaþverdalur á milli Jörfa og Saurstaða. Jörfadalur, eins og hann nefnist í daglegu tali, gengur fyrst til suðurs og beygir síðan til suðausturs og austurs. Villingadalur er stærstur þessara „afdala“ og sá eini sem hefur verið byggður að því vitað er.

Bani

Horft til Bana frá Haukadalsá neðan við Réttarfoss. Ljósmynd BJ 2013.

Fjöll umhverfis Haukadal eru að norðanverðu, frá vestri til austurs: Vatnsfjall, Stóra-Vatnshornsfjall (allt að Fanngili), Giljalandsfjall og Skarðsfjall (Bani). Norðan Haukadalsskarðs er Geldingafell, en sunnan þess Klambrafell. Vatnshornsmúli skilur að Svínadal og Sléttadal og Jörfamúli Sléttadal og Haukadal. Að sunnanverðu frá austri til vesturs eru Krossbrún, Kirkjufell og vestan Villingadals Mjóbólshyrna, Hamrafjall, vestan Skálardals, og þá Jörfahnúkur. Svínhólshlíð er vestan Jörfadals og síðan lækkar landið til vesturs og þar eru Saurstaðaháls og Skógsháls, sunnan Haukadalsvatns. Hæstu fjöll í nágrenni Haukadals eru: Geldingafell (800 m) að norðan, Tröllakirkja (1001 m) að austan, og Gamalhnúkar (940 m) að sunnan.

Horft upp í Haukadalsskarð

Horft upp í Haukadalsskarð. Ljósmynd BJ 2013.

Áður var fjöl­farin leið um Hauka­dals­skarð frá Norður­landi til Snæ­fells­ness og Suður­dala. Hauk­dælingar og Mið­dælingar sóttu al­mennt verslun til Borð­eyrar, þar sem R. P. Riis rak sel­s­töðu­verslun og var al­gengt að gist væri, eða komið við, á Skarði, sem var fremsti bær í Hauka­dal. Al­gengt var að norð­lenskir ver­menn kysu fremur að fara um Hauka­dals­skarð á leið sinni til sjó­róðra undir Jökli en Holta­vörðu­heiði, sem er bæði lengri fjall­vegur og tor­sóttari í ill­viðrum. Þó gat verið vara­samt að fara yfir Skarð að vetrar­lagi og eru til sögur um að menn hafi farist á þeirri leið, einkum ef þeir villtust af leið og gengu fram af snar­bröttum brúnunum fyrir vestan Skarðið þar sem Bani heitir. Til marks um hrakninga á Hauka­dals­skarði er eftir­far­andi vísa, sem eignuð er Jóni nokkrum sóta af borg­firskum ættum er flakkaði milli lands­fjórðunga með fjöl­skyldu sína:

Hauka­dals­skarð ég muna má,
mín kona eftir frosin lá.
Litla Borga til jarðar hné,
strákurinn Brynki stóð sem tré.
Jelejújá, jelejújá.

Rétt eftir síðustu alda­mót flutti séra Jón­mundur Júlíus Hall­dórs­son (1874-1954), prestur í Ólafs­vík, bú­ferlum að Barði í Fljótum ás­amt konu sinni, Guð­rúnu Jóns­dóttur (1865-1951). Leið þeirra lá um Hauka­dal og gistu þau á Hömrum hjá Birni Jóns­syni og Guð­rúnu Ólafs­dóttur, er þá bjuggu þar. Prest­frúin, sem var þunguð, ól þar barn sitt og dvaldist á Hömrum þar til hún hafði náð sér og var ferð­a­f­ær. Þá kom eigin­maður hennar aftur og sótti hana. Ætla má að þarna hafi verið um nokkuð dæmi­gerða ferð að ræða frá Snæ­fells­nesi norður í land og hefur þá legið beinast við að fara norður Skarð. Nú fara menn ekki um Hauka­dals­skarð nema sér til gamans, eða í göngum, en hægt er að komast yfir Skarðið á vel út­búnum bíl í góðu færi.

Í sýslulýsingu Dalasýslu 1840 segir Kristján kammerráð Magnúsen sýslumaður um leiðir milli Haukadals og Miðdala:

Til Miðdala úr Haukadal er nú almennt farinn svonefndur Prestsvegur hjá Litla-Vatnshorni yfir Kvennabrekkuháls, en sá efri vegur yfir Saurstaða­háls er nú sjaldfarnari. (Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar, bls 20).

Upp úr miðri 20. öld var þessu öfugt farið. Kristján lætur þess einnig getið að Haukadalur liggi fjærst sjó allra byggðarlaga í Dalasýslu og sé „undirorpinn einna mestum harðindum, og fannþunga á vetrum, og viðrar þar tíðum mjög stirt allt á vor fram,…” (bls 25).

Undir­lendi í Hauka­dal er sæmi­legt neðst, en dalurinn mjókkar fram, einkum fyrir framan Núp. Þar fyrir framan er slétt­lendi mjög af skornum skammti. Al­mennt má segja að Hauka­dalur sé nokkuð vel til sauð­fjár­ræktar fallinn, enda hefur sú verið að­al­at­vinna hrepps­búa um langan aldur. Sæmi­leg veiði er í Hauka­dals­vatni, sem er stærsta vatn í Dala­sýslu. Þá er Hauka­dals­á ein helsta veiði­á í Dölum, einkum neðan vatnsins.

 

Comments are closed.