Kaldakinn er fyrst nefnd í máldögum Kvennabrekku- og Hjarðarholtskirkna frá 1375. Síðar hefur jörðin komist í eigu Lofts Guttormssonar hins ríka á Möðruvöllum því 1430 gefur hann Sumarliða syni sínum jörðina. Að fornu var jörðin metin á 24 hundruð, en samkvæmt hinu nýja mati frá 1861 taldist jörðin 13,1 hundrað.
Fram af Köldukinn gengur Þverdalur. Eftir honum rennur Þverá og skiptir mörkum með Haukadalshreppi og Laxárdalshreppi, eins og áður sagði. Á Þverdal var býlið Skógsmúli, en þar hafði Stóri-Skógur selstöðu á 19. öld og tilheyrði jörðin þá Miðdalahreppi og gerir enn, þó að hún sé nú í eigu Köldukinnar.