Fjallasalurinn fagri
Haukadalur er undir hæl Hvammsfjarðarstígvélsins og liggur frá austri til vesturs á milli Miðdala og Laxárdals. Hreppsmörk eru að sunnanverðu úr Haukadalsvatni við Prestagil um Saurstaðaháls að landamerkjum Miðdalahrepps eftir fjallsbrún milli Saurstaða, Þverdals og Geldingadals á Gamalhnjúka. Þaðan liggja mörk eftir vatnaskilum á hátind Snjófjalla, Tröllakirkju. Þar eru mörk þriggja sýslna. Af Snjófjöllum liggja mörk að mörkum Strandasýslu á hátind Geldingafells og þaðan sem vötnum hallar móti mörkum Laxárdals um Rjúpnafell í Hestvallavatn og síðan með Þverá að mörkum Skógsmúla í Miðdalahreppi, um Köldukinnar- og Þorsteinsstaðahálsa og beina sjónhendingu í Gálghamar við Haukadalsá.
Haukadalur er svipmikill dalur umgirtur herðabreiðum fjöllum. Þar ríkir náttúrufegurð á sumri sem vetri. Allt frá landnámi hefur mátt finna þar fagurt mannlíf og blómlegan búskap. Um það og ýmislegt fleira má lesa nánar á þessum vef.