Haukadalsskarð

Haukadalsskarð

Haukadalsskarð. Ljósmynd BJ 2013.

Áður var fjölfarin leið um Haukadalsskarð frá Norðurlandi til Snæfellsness og Suður-dala. Haukdælingar og Miðdælingar sóttu almennt verslun til Borðeyrar, þar sem R. P. Riis rak selstöðuverslun og var algengt að gist væri, eða komið við, á Skarði, sem var fremsti bær í Haukadal. Algengt var að norðlenskir vermenn kysu fremur að fara um Haukadalsskarð á leið sinni til sjóróðra undir Jökli en Holtavörðuheiði, sem er bæði lengri fjallvegur og torsóttari í illviðrum. Þó gat verið varasamt að fara yfir Skarð að vetrarlagi og eru til sögur um að menn hafi farist á þeirri leið, einkum ef þeir villtust af leið og gengu fram af snarbröttum brúnunum fyrir vestan Skarðið þar sem Bani heitir. Til marks um hrakninga á Haukadalsskarði er eftirfarandi vísa, sem eignuð er Jóni nokkrum sóta af borgfirskum ættum er flakkaði milli landsfjórðunga með fjölskyldu sína:

Haukadalsskarð ég muna má,
mín kona eftir frosin lá.
Litla Borga til jarðar hné,
strákurinn Brynki stóð sem tré.
Jelejújá, jelejújá.

Rétt eftir síðustu aldamót flutti séra Jónmundur Júlíus Halldórsson (1874-1954), prestur í Ólafsvík, búferlum að Barði í Fljótum ásamt konu sinni, Guðrúnu Jónsdóttur (1865-1951). Leið þeirra lá um Haukadal og gistu þau á Hömrum hjá Birni Jónssyni og Guðrúnu Ólafsdóttur, er þá bjuggu þar. Prestfrúin, sem var þunguð, ól þar barn sitt og dvaldist á Hömrum þar til hún hafði náð sér og var ferðafær. Þá kom eiginmaður hennar aftur og sótti hana. Ætla má að þarna hafi verið um nokkuð dæmigerða ferð að ræða frá Snæfellsnesi norður í land og hefur þá legið beinast við að fara norður Skarð. Nú er ekki farið um Haukadalsskarð nema sér til gamans, eða í göngum. Hægt er að komast yfir Skarðið á vel búnum bílum að sumarlagi og er um 15 km leið frá Skarðsrétt að þjóðveginum hjá Melum í Hrútafirði.

Á vef Jónasar Kristjánssonar er lýsing Steingríms Kristinssonar á reiðleið frá Stóra-Vatnshorni í Haukadal, um Haukadalsskarð að Stað í Hrútafirði.

 

Comments are closed.