Býli og búendur

Haukadalur

Horft niður Haukadal af toppi Kirkjufells. Ljósmynd BJ 1988.

Helstu bæir í Hauka­dal hafa jafnan verið Stóra-Vatns­horn og Jörfi. Á Stóra-Vatns­horni hefur verið sóknar­kirkja Hauk­dælinga eins lengi og vitað er og að líkindum frá setningu tíundar­laga 1096. Í kaþólskum sið var kirkjan hel­guð með guði, Maríu guðs­móður, postulunum Andrési og Pétri, Ól­afi konungi og Þor­láki biskupi. Nú­ver­andi kirkja var vígð 15. ágúst 1971. Við Stóra-Vatns­horn er kennt eitt merkasta hand­rit Ís­lend­inga­sagna, Vatns­hyrna, sem illu heilli brann í Kaup­manna­höfn 1728 að frá­töldum fá­einum blöðum. Að fornu var Stóra-Vatns­horn talin dý­rasta jörð í Hauka­dal, 60 hundruð að Skriðu­koti með­töldu, sem reiknaðist 16 hundruð. Í jarða­matinu 1861 er jörðin, án Skriðu­kots, talin 23,8 hundruð. Jörðin hefur alla tíð verið í bænda­eign og þar hefur sama ættin búið og átt það nær ós­litið um 300 ára skeið. Hákon Árna­son, lögsagnari, eignaðist jörðina á 17. öld með konu sinni Her­dísi Bjarna­dóttur Péturs­sonar, sýslu­manns, frá Staðar­hóli, af­komanda Staðar­hóls-Páls, sem var lang­afi hennar.

Á Jörfa var einnig kirkja á 16. og 17. öld sem hel­guð var guði, Maríu guðs­móður og helgum krossi í kaþólskum sið. Kirkja er nú löngu af­lögð á Jörfa, en þar var um langt skeið þing­staður hreppsins. Jörfi er lík­lega kunnastur fyrir gleði­hald er þar var fyrr á öldum og virðist hafa keyrt úr hófi á stundum. Í það minnsta eru heimildir um að gleði sú hafi verið bönnuð í tví­gang; í fyrsta skipti árið 1695, ás­amt með Staðar­fells­gleði, af Birni Jóns­syni sýslu­manni á Stað­ar­f­elli, og í hið seinna sinn árið 1707 eða 1708 af Jóni sýslu­manni Magnús­syni, bróður Árna hand­rita­safnara. Sagnir eru um að báðir hafi þeir orðið fyrir skak­kaf­öllum vegna þessara embættis­verka sinna, en það kann að vera eitthvað málum blandið og draga dám af þeirri stað­reynd að gleði­hald, einkum Jörfagleði, naut fádæma vin­sælda, sem vart er að undra. Sagt er að vinnu­fólk hafi sett það skil­yrði fyrir ráðningu að það fengi að sækja Jörfagleði. Fátt er með vissu vitað um Jörfagleði, en það er haft eftir ekki ómerkari manni en Magnúsi Stephensen að 19 börn hafi komið undir á síðustu gleðinni.

Til er svohljóðandi þula um bæi í Hauka­dal, en ekki er kunnugt um höfund hennar:

Þor­s­teins­staðir, Kalda­kinn,
kemur að Vatni og Vatns­horni,
Skin­þúfu, Skriðu­koti.
Saur­staðir, Jörfi, Hofi með,
Hamrar, Núpur, Leikskálir;
breikkar síst byggðar­slotið.
Mjóibóll,
Smyrlhóll,
Kross, með Skarði,
Græna­garði,
Gilja­landi.
Villinga­dalur úr vegi standi.

Þulan er hér tilfærð eins og vefarinn lærði hana. Í henni er getið um 19 bæi, en heimildir geta um a.m.k. 36 bæi sem einhvern tíma hafa verið byggðir og hér er greint frá.

Í upphafi árs 2015 var búið á þessum bæjum í Haukadal.

Comments are closed.