Helstu bæir í Haukadal hafa jafnan verið Stóra-Vatnshorn og Jörfi. Á Stóra-Vatnshorni hefur verið sóknarkirkja Haukdælinga eins lengi og vitað er og að líkindum frá setningu tíundarlaga 1096. Í kaþólskum sið var kirkjan helguð með guði, Maríu guðsmóður, postulunum Andrési og Pétri, Ólafi konungi og Þorláki biskupi. Núverandi kirkja var vígð 15. ágúst 1971. Við Stóra-Vatnshorn er kennt eitt merkasta handrit Íslendingasagna, Vatnshyrna, sem illu heilli brann í Kaupmannahöfn 1728 að frátöldum fáeinum blöðum. Að fornu var Stóra-Vatnshorn talin dýrasta jörð í Haukadal, 60 hundruð að Skriðukoti meðtöldu, sem reiknaðist 16 hundruð. Í jarðamatinu 1861 er jörðin, án Skriðukots, talin 23,8 hundruð. Jörðin hefur alla tíð verið í bændaeign og þar hefur sama ættin búið og átt það nær óslitið um 300 ára skeið. Hákon Árnason, lögsagnari, eignaðist jörðina á 17. öld með konu sinni Herdísi Bjarnadóttur Péturssonar, sýslumanns, frá Staðarhóli, afkomanda Staðarhóls-Páls, sem var langafi hennar.
Á Jörfa var einnig kirkja á 16. og 17. öld sem helguð var guði, Maríu guðsmóður og helgum krossi í kaþólskum sið. Kirkja er nú löngu aflögð á Jörfa, en þar var um langt skeið þingstaður hreppsins. Jörfi er líklega kunnastur fyrir gleðihald er þar var fyrr á öldum og virðist hafa keyrt úr hófi á stundum. Í það minnsta eru heimildir um að gleði sú hafi verið bönnuð í tvígang; í fyrsta skipti árið 1695, ásamt með Staðarfellsgleði, af Birni Jónssyni sýslumanni á Staðarfelli, og í hið seinna sinn árið 1707 eða 1708 af Jóni sýslumanni Magnússyni, bróður Árna handritasafnara. Sagnir eru um að báðir hafi þeir orðið fyrir skakkaföllum vegna þessara embættisverka sinna, en það kann að vera eitthvað málum blandið og draga dám af þeirri staðreynd að gleðihald, einkum Jörfagleði, naut fádæma vinsælda, sem vart er að undra. Sagt er að vinnufólk hafi sett það skilyrði fyrir ráðningu að það fengi að sækja Jörfagleði. Fátt er með vissu vitað um Jörfagleði, en það er haft eftir ekki ómerkari manni en Magnúsi Stephensen að 19 börn hafi komið undir á síðustu gleðinni.
Til er svohljóðandi þula um bæi í Haukadal, en ekki er kunnugt um höfund hennar:
Þorsteinsstaðir, Kaldakinn,
kemur að Vatni og Vatnshorni,
Skinþúfu, Skriðukoti.
Saurstaðir, Jörfi, Hofi með,
Hamrar, Núpur, Leikskálir;
breikkar síst byggðarslotið.
Mjóibóll,
Smyrlhóll,
Kross, með Skarði,
Grænagarði,
Giljalandi.
Villingadalur úr vegi standi.
Þulan er hér tilfærð eins og vefarinn lærði hana. Í henni er getið um 19 bæi, en heimildir geta um a.m.k. 36 bæi sem einhvern tíma hafa verið byggðir og hér er greint frá.
Í upphafi árs 2015 var búið á þessum bæjum í Haukadal.