Haukadalsvatn

 

Á Ystanesi við Haukadalsvatn

Haukadalsvatn. Ljósmynd BJ 2006.

Neðst í Haukadal er stærsta stöðuvatn í Dalasýslu, Haukadalsvatn, og er í því nokkur silungs- og laxveiði. Í vatninu, einkum út af svonefndri Húsavík, hefur fundist mýrargas, sem er uppstreymi, sem kemur frá rotnandi jurtaleifum á botni vatnsins. Haukadalsvatn kemur nokkuð við sögu í þjóðsögum og eru til sögur um landgöngur sækúa og tilvist nykra og skrímsla, sem tengjast Haukadalsvatni. Hér er ein úr safni Jóns Árnasonar (Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I, bls 129).

Vatn það sem er í Haukadal vestra er djúpt mjög og ætla menn það hafi undirgöng við sjóinn. Þykjast menn oft heyra dunur í vatninu og oft brýtur ís af því í frosti. Einu sinni í fyrndinni er mælt að bóndinn á Vatnshorni hafi fyrir dag á útlíðanda sumri komið í fjós sitt. Lét hann það standa opið ef kýr kynnu að koma heim. En er hann kom í fjósið var það fullt af átján kúm, sægrám, Voru þær alveg eins og aðrar kýr nema hvað blaðra var á nösum þeirra. Kýrnar ruddust út, en bóndi greip barefli og tókst honum að sprengja blöðruna á níu kúm. Sluppu hinar í vatnið, en þær sem blaðran var sprengd á urðu eftir því þær voru í eðli sínu orðnar að landkúm. Þær voru allar beztu kýr og eru enn margar kýr af kyni þeirra um Dali. (Þjóðsögur Jóns Árnasonar)

 

Comments are closed.