Mörk
Haukadalur liggur frá vestri til austurs fyrir botni Hvammsfjarðar, á milli Miðdala og Laxárdals. Hann er nú hluti Dalabyggðar, en var sérstakur hreppur allt til ársins 1994. Hreppsmörk voru:
„að sunnanverðu úr Haukadalsvatni við Prestagil um Saurstaðaháls að landamerkjum Miðdalahrepps eftir fjallsbrún milli Saurstaða, Þverdals og Geldingadals á Gamalhnjúka. Þaðan liggja mörk eftir vatnaskilum á hátind Snjófjalla, Tröllakirkju. Þar eru mörk þriggja sýslna. Af Snjófjöllum liggja mörk að mörkum Strandasýslu á hátind Geldingafells og þaðan sem vötnum hallar móti mörkum Laxárdals um Rjúpnafell í Hestvallavatn og síðan með Þverá að mörkum Skógsmúla í Miðdalahreppi, um Köldukinnar- og Þorsteinsstaðahálsa og beina sjónhendingu í Gálghamar við Haukadalsá.“ (Landið þitt Ísland, 2. bindi, bls 27).
Skipting Dalasýslu í hreppa hefur að mestu leyti verið óbreytt frá því fyrir 1700 og á þeim tíma hafa hrepparnir oftast verið átta talsins. Breytingar á þeirri skipan verða ekki fyrr en á 20. öld, einkum á síðari helmingi aldarinnar og skal nú gerð grein fyrir þeim.
- Með stjórnarráðsbréfi dagsettu 13. júní 1918 var Skarðsstrandarhreppi skipt í Skarðshrepp og Klofningshrepp. Hin nýju hreppamörk lágu á milli bæjanna Reynikeldu í Skarðshreppi og Ballarár í Klofningshreppi.
- Hinn 1. september 1986 tók gildi ákvörðun félagsmálaráðuneytisins um skiptingu Klofningshrepps á milli Fellsstrandarhrepps og Skarðshrepps. Með þeirri ákvörðun færðust jarðirnar Ballará og Melar úr Klofningshreppi í Skarðshrepp, en aðrar jarðir sem áður voru í Klofningshreppi töldust frá þessum tímamörkum til Fellsstrandarhrepps.
- Hinn 14. nóvember 1991 staðfesti félagsmálaráðuneytið sameiningu Hörðudalshrepps og Miðdalahrepps í eitt sveitarfélag, Suðurdalahrepp. Sameiningin tók gildi 1. janúar 1992.
- Hinn 18. janúar 1994 staðfesti félagsmálaráðuneytið sameiningu Suðurdalahrepps, Haukadalshrepps, Laxárdalshrepps, Hvammshrepps og Fellsstrandarhrepps í eitt sveitarfélag frá og með 11. júní 1994 að telja í samræmi við niðurstöðu atkvæðagreiðslu sem fram fór 20. nóvember 1993.
- Hinn 20. maí 1994 var Skarðshreppi formlega bætt í hóp hinna sameinuðu sveitarfélaga, í samræmi við niðurstöður endurtekinnar atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga og sama dag auglýsti ráðuneytið nafn hins nýja sveitarfélags, Dalabyggð.
- Hinn 18. desember 1997 ákvað félagsmálaráðuneytið að sameina Dalabyggð og Skógarstrandarhrepp í eitt sveitarfélag og tók sú skipan gildi frá og með 1. janúar 1998.
- Hinn 20. mars 2006 staðfesti félagsmálaráðuneytið sameiningu Dalabyggðar og Saurbæjarhrepps í eitt sveitarfélag í samræmi við niðurstöðu atkvæðagreiðslu sem fram fór 8. október 2005. Sameiningin tók gildi 10. júní 2006.
Eftir síðustu sameininguna er Dalasýsla öll orðin eitt sveitarfélag sem að auki nær yfir Skógarstrandarhrepp í Snæfellsnessýslu. Þannig hafa mörk sveitarfélaga í Dalasýslu gjörbreyst á undanförnum árum og er það í samræmi við þróun sveitarfélaga á landsvísu.
Mótun
Fyrir um það bil sex miljónum ára var megineldstöð virk suður af Haukadal, á svæði sem markast af Lambahnúki að norðan, Sanddalsdrögum að austan, Kálfagili og Reykjagili að vestan og Öxl og Sprengibrekku að sunnan. Eldsumbrotin fóru rólega af stað, en jukust stöðugt og alls var eldstöðin virk í um það bil 2 milljónir ára, sem er með mestu eldvirkni sem þekkist.
Sögu eldstöðvarinnar má lesa úr berglögum á svæðinu. Gilin í fjöllunum sunnan Haukadals (Jörfagil, Hamragil, Stekkjargil og Skálargil) eru sprungur eða misgengi; sem myndast hafa í umbrotunum. Beggja vegna Haukadals eru berggangar, sem munu vera fornar aðfærsluæðar eldgosa. Í hlíðum Villingadals má sjá ljósar rákir ganga skáhallt upp hlíðarnar; þetta eru súrar gosrásir, eða keilugangar, sem myndast hafa á þessu skeiði. Kirkjufell er gostappi, sem storknað hefur djúpt i jörðu. Á svipaðan hátt hefur fjallið Sáta myndast.
Á þessu tímabili (fyrir 5,5 – 6,5 milljón árum) myndast fjöllin beggja vegna dalsins og voru þá samfelld slétta. Þau eru úr basalthraunum með þunnum, rauðum millilögum, sem eru gamall jarðvegur. Miklu yngri er Tröllakirkja í Snjófjöllum; móbergsfjall, sem orðið hefur til við gos undir jökli fyrir 1-2 milljón árum.
Þegar eldstöðin var að syngja sitt síðasta settist á hana jökull og er það elsta dæmi um jökul á Vesturlandi, sem vitað er um. Eldvirkni hefur þó verið nokkur undir jöklinum og hafa m.a. Gamalhnúkarnir myndast í slíku gosi. Gosberg, sem myndast hefur við gos undir fornum jökli, sést m.a. í brúnum haugum í fjöllunum sunnan Haukadals, t.d. í Jörfahnúk.
Dalurinn sjálfur hefur fyrst og fremst myndast af jökulrofi, sem hefur tekið milljónir ára. Gilin eru mynduð af vatnsrofi, sprungum og misgengi eins og áður sagði.
Þegar jökullinn svarf dalinn niður í basaltstaflann, urðu hlíðar hans sumsstaðar svo brattar að þær hrundu fram, eftir að jökullinn bráðnaði úr dalnum. Líklegt má telja að þetta hafi gerst fyrir um það bil tíu þúsund árum. Elsta dæmið um framhlaup af þessu tagi er að finna á Villingadal og yngsta berghlaupið er hraunið fyrir ofan Skjöldinn, gegnt gamla bæjarstæðinu á Núpi. Önnur dæmi um berghlaup, eða framhlaup, eru fyrir neðan Bana, hjá Giljalandi, og holtin fyrir ofan Hamra (Nátthagar, Húsaholt og Jörfanátthagar).
Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um tíu til tólf þúsund árum. Þá hurfu jöklar og yfirborð sjávar hækkaði og náði allt að 100 metrum yfir núverandi sjávarmál. Þá lýkur stórvirkasta mótunarskeiði Haukadals og nágrennis. Til gamans má geta þess að á þessum tíma myndast svokallaður Búðardalsleir, sem er jökulgormur að uppruna, sem jökullinn hefur flutt með sér. Hann er stundum einnig nefndur smiðjumór, deigulmór, hvarfleir og skessuskítur.