Landnám

Eiríksstaðir tilgátuhús

Eiríksstaðir tilgátuhús. Ljósmynd BJ 2003.

Sam­kvæmt frá­sögn Land­námu á Eiríkur rauði að hafa numið land í Hauka­dal og „bjó á Eiríks­stöðum hjá Vatns­horni.“ Land­náma getur annars land­náms­manns í Hauka­dal og er sá Þor­björn hauk­dælski, sem bjó á Vatni. Um land­nám hans segir Haraldur Matthías­son: „Senni­lega er Þor­björn á Vatni fyrsti bú­andi, sem getið er um í dalnum, talinn sami maður og Þor­björn hauk­dælski. Hann er dóttur­maður Gils skeiðar­nefs land­náms­manns. Hann er einnig bróðir Jó­runnar Bjarna­dóttur, konu Höskuldar Dala-Kolls­sonar, að því er Mela­bók hermir. Hann hefur því naumast sezt að í Hauka­dal, fyrr en eftir lok land­náms­aldar. Er lík­legt, að Höskuldur hafi látið Þor­björn njóta mág­semdar og hjálpað honum til að fá eitthvað af hinu ágæta landi í Hauka­dal, sem frændur hans, Hvamm­verjar, hafa þá ráðið yfir. Höskuldur kvænist nokkru fyrir 940 að tali Guð­brands Vigfús­sonar. Hefði Þor­björn þá átt að setjast að í Hauka­dal ná­l­ægt 94­0.“ (Landið og Land­náma, i, bls 188-189).

Orrustuhvammur.

Orrustuhvammur. Saurstaðagil til hægri og mynni Jörfaþverdals að baki. Ljósmynd BJ 1988.

Í Land­námu segir frá því að þrælar Eiríks rauða hafi fellt skriðu á bæ Val­þjófs á Val­þjófs­stöðum, en Eyjólfur saur, frændi hans, drap þrælana hjá Skeiðs­brekkum upp frá Vatns­horni. Eiríkur hefndi þræla sinna, háði orrustu við Eyjólf saur og felldi hann. Sagnir eru um að þau vopna­skipti hafi átt sér stað í svonefndum Orrustu­hvammi skammt framan við Saur­s­taða­gil. Eiríkur drap fleiri menn, þar á með­al Hólm­göngu-Hrafn á Leik­s­kálum. Frændur Eyjólfs saurs, Geir­s­teinn og Oddur á Jörfa, mæltu eftir hann og var Eiríkur gerður út­lægur. Þá fór hann til Græn­lands árið 982, svo sem frægt er orðið, og Leifur, sonur hans, síðar til Ameríku, sem hann skírði reyndar Vín­land hið góða.

Rústir bæjar Eiríks rauða

Rústir bæjar Eiríks rauða. Efst til vinstri sést í tilgátuhúsið. Ljósmynd BJ 2003.

Forn­leifarannsóknir í einhverri mynd hafa nokkrum sinnum farið fram á Eiríks­stöðum. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi skoðaði, mældi og teiknaði upp rústir á Eiríksstöðum sumarið 1894. Árið eftir gróf Þorsteinn Erlingsson rústirnar upp. Daniel Bruun kannaði tóttirnar sumarið 1896 og Matthías Þórðarson rannsakaði þær árið 1938. Síðast voru rústirnar rannsakaðar á árunum 1997 og 1998 af Guð­mundi Ólafs­syni og Ragnheiði Trausta­dóttur. Þær rannsóknir benda til þess að á tíma­bilinu 890-980 hafi verið þarna skáli, tæplega 50 fer­metrar að flat­ar­m­áli, hlaðinn úr torfi og grjóti. Svo er að sjá sem skriða hafi fallið á norðurvegg skálans, líklega skömmu eftir að hann var yfirgefinn.

Í árs­byrjun 199­6 fól hrepps­nefnd Dala­byggðar sér­stakri Eirík­s­staða­nefnd að gera til­lögur og hafa for­göngu um að minnast Leifs heppna Eiríks­sonar árið 2000. Nefndin setti sér tví­þætt mark­mið: annars vegar að sjá um upp­gröft og frá­gang rústanna á Eiríks­stöðum og byggja þar eftir­líkingu af skála frá land­náms­öld og hins vegar að standa að byggingu menningar- og safna­húss í Búðar­dal sem tileinkað yrði sögu Eiríks rauða, sonar hans, Leifs, og öðrum norrænum land­könnuðum. Segja má að þessi áform hafi gengið eftir. Árið 1997 fór fram rannsókn á rústunum, eins og áður segir, tilgátuhús var vígt á Eiríksstöðum árið 2000 í tilefni af 1000 ára afmæli landafunda Leifs heppa og útbúin snyrtiaðstaða og upplýsingaskilti fyrir ferðamenn. Í endurgerðu gamla kaupfélagshúsinu í Búðardal, sem nú heitir Leifsbúð, er uppi sýning um landafundi feðganna Eiríks rauða og sonar hans Leifs heppna.

Comments are closed.