Samkvæmt frásögn Landnámu á Eiríkur rauði að hafa numið land í Haukadal og „bjó á Eiríksstöðum hjá Vatnshorni.“ Landnáma getur annars landnámsmanns í Haukadal og er sá Þorbjörn haukdælski, sem bjó á Vatni. Um landnám hans segir Haraldur Matthíasson: „Sennilega er Þorbjörn á Vatni fyrsti búandi, sem getið er um í dalnum, talinn sami maður og Þorbjörn haukdælski. Hann er dótturmaður Gils skeiðarnefs landnámsmanns. Hann er einnig bróðir Jórunnar Bjarnadóttur, konu Höskuldar Dala-Kollssonar, að því er Melabók hermir. Hann hefur því naumast sezt að í Haukadal, fyrr en eftir lok landnámsaldar. Er líklegt, að Höskuldur hafi látið Þorbjörn njóta mágsemdar og hjálpað honum til að fá eitthvað af hinu ágæta landi í Haukadal, sem frændur hans, Hvammverjar, hafa þá ráðið yfir. Höskuldur kvænist nokkru fyrir 940 að tali Guðbrands Vigfússonar. Hefði Þorbjörn þá átt að setjast að í Haukadal nálægt 940.“ (Landið og Landnáma, i, bls 188-189).
Í Landnámu segir frá því að þrælar Eiríks rauða hafi fellt skriðu á bæ Valþjófs á Valþjófsstöðum, en Eyjólfur saur, frændi hans, drap þrælana hjá Skeiðsbrekkum upp frá Vatnshorni. Eiríkur hefndi þræla sinna, háði orrustu við Eyjólf saur og felldi hann. Sagnir eru um að þau vopnaskipti hafi átt sér stað í svonefndum Orrustuhvammi skammt framan við Saurstaðagil. Eiríkur drap fleiri menn, þar á meðal Hólmgöngu-Hrafn á Leikskálum. Frændur Eyjólfs saurs, Geirsteinn og Oddur á Jörfa, mæltu eftir hann og var Eiríkur gerður útlægur. Þá fór hann til Grænlands árið 982, svo sem frægt er orðið, og Leifur, sonur hans, síðar til Ameríku, sem hann skírði reyndar Vínland hið góða.
Fornleifarannsóknir í einhverri mynd hafa nokkrum sinnum farið fram á Eiríksstöðum. Brynjólfur Jónsson frá Minna-Núpi skoðaði, mældi og teiknaði upp rústir á Eiríksstöðum sumarið 1894. Árið eftir gróf Þorsteinn Erlingsson rústirnar upp. Daniel Bruun kannaði tóttirnar sumarið 1896 og Matthías Þórðarson rannsakaði þær árið 1938. Síðast voru rústirnar rannsakaðar á árunum 1997 og 1998 af Guðmundi Ólafssyni og Ragnheiði Traustadóttur. Þær rannsóknir benda til þess að á tímabilinu 890-980 hafi verið þarna skáli, tæplega 50 fermetrar að flatarmáli, hlaðinn úr torfi og grjóti. Svo er að sjá sem skriða hafi fallið á norðurvegg skálans, líklega skömmu eftir að hann var yfirgefinn.
Í ársbyrjun 1996 fól hreppsnefnd Dalabyggðar sérstakri Eiríksstaðanefnd að gera tillögur og hafa forgöngu um að minnast Leifs heppna Eiríkssonar árið 2000. Nefndin setti sér tvíþætt markmið: annars vegar að sjá um uppgröft og frágang rústanna á Eiríksstöðum og byggja þar eftirlíkingu af skála frá landnámsöld og hins vegar að standa að byggingu menningar- og safnahúss í Búðardal sem tileinkað yrði sögu Eiríks rauða, sonar hans, Leifs, og öðrum norrænum landkönnuðum. Segja má að þessi áform hafi gengið eftir. Árið 1997 fór fram rannsókn á rústunum, eins og áður segir, tilgátuhús var vígt á Eiríksstöðum árið 2000 í tilefni af 1000 ára afmæli landafunda Leifs heppa og útbúin snyrtiaðstaða og upplýsingaskilti fyrir ferðamenn. Í endurgerðu gamla kaupfélagshúsinu í Búðardal, sem nú heitir Leifsbúð, er uppi sýning um landafundi feðganna Eiríks rauða og sonar hans Leifs heppna.