Haukadalsá

 

Haukadalsá

Brúin yfir Haukadalsá fyrir neðan Hamra. Ljósmynd BJ 2006.

Haukadalsá á upptök sín í drögum Haukadals fremri og á leið sinni niður dalinn til sjávar eykur hún vatnsmagn sitt með innihaldi margra áa og gilja. Þokkalega veiðist í Haukadalsá framan Hakadalsvatns en mun betur neðan vatns og er sá hluti árinnar með bestu laxveiðiám landsins. Þar veiðist töluvert af stórlaxi ár hvert. Í þeim hluta árinnar eru um 40 merktir veiðistaðir. Sumarið 2014 veiddust þar þrír laxar í yfirstærð í ánni sem mældust 100, 106 og 108 cm.

Allajafnan rennur Haukadalsá í friðsæld eftir öllum sínum bugðum niður dalinn. En hún getur orðið illvíg ef því er að skipta og hefur orðið mönnum og skepnum að fjörtjóni. Veturinn 1256-57 er Þorgils skarði reið með fríðu liði ofan eftir Haukadal „var á þeyviðri.“

Og er þeir riðu á Haukadalsá hljóp áin ofan svo ákaflega að þá rak af baki er á ánni voru. Drukknaði þar Sveinn Ívarsson. Hann var sem fylgdarmaður. En þeim lagði öllum næst Þorgilsi, Bergi og Ásbirni. Þetta var Vincentíusmessudag. Þótti mönnum þetta kyn mikil því að vötn öll voru lítil bæði áður og síðan. Þorgils lét flytja lík Sveins til kirkju til Vatnshorns suður og gaf með líkinu kú til kirkjunnar. (Sturlunga saga, 724)

Árið 1720 drukknaði Jón Sigurðsson Dalaskáld frá Bæ í Miðdölum í Haukadalsá fyrir framan Stóra-Vatnshorn.

Neðar með Haukadalsá og norðan við hana, í Lækjarskógslandi, er Gálghamar, sem nefndur er Höfði í Laxdælu og Sturlungu. Þar réðu ráðum sínum Guðrún Ósvífursdóttir og Snorri goði, eftir víg Bolla, og þar hitti Þórður kakali Sighvatsson (1210 – 1256) menn sína 8. ágúst 1243 áður en þeir riðu að Hvammi í Vatnsdal og vógu Mörð Eiríksson, þann er fór að Sighvati í Örlygsstaðabardaga.

Árið 1947 var byggð brú yfir Haukadalsá við nýbýlið Aflsstaði. Ný brú leysti hana af hólmi árið 1971 og nú er rætt um byggingu nýrrar brúar sem leysi núverandi brú af hólmi. Árið 1963 var byggð brú yfir Haukadalsá við Hamra og árið 1975 önnur brú við Smyrlahól.

 

Comments are closed.