Búseta 1695-2014
Villingadalur er ein þeirra jarða, sem nefndar eru í gjafabréfi Lofts ríka frá 1430 og er jarðarinnar þar fyrst getið í rituðum heimilum. Villingadalur hefur verið allstór jörð, eða 24 hundruð að fornu mati og 14,2 að nýju.
Í lýsingu Dalasýslu í Árbók Ferðafélags Íslands, 1947, segir svo um Villingadal: „Þar hefur verið býli, og oft búið vel. Reyndar lýsti einn búandinn staðnum þannig, að þar þiðnaði aldrei af bæjarklinkunni, heyrðist ekki í öðrum kvikindum en hrafni og tófu, sólin færi fyrir sunnan Gamalhnúka …, en Guð færi fyrir neðan Hlaup …, gróður sprytti þar enginn annar en elfting og mosi“ (bls 40-41). Í sóknarlýsingu Kvennabrekkusóknar frá 1840 skrifar Bjarni Eggertsson prestur á Kvennabrekku að í Villingadal séu „landgæði fyrir sauðfé … hvað best í þessari sýslu ef eigi væri þar of margt fé.“ (Dalasýsla. Sýslu- og sóknarlýsingar, bls 50).
Villingadalur hefur verið í eyði síðan 1939.
Á vef Jónasar Kristjánssonar um þjóðleiðir er lýst reiðleið suður Villingadal að Krossbrúnarleið og suður í Sanddal í Mýrasýslu.